Geltin í fjöllunum í Patagóniu

Daginn eftir að ég varð þrítug faldi ég mig undir sæng í sólarhring og svaraði öllum sem óskuðu mér til hamingju með lífið um að það væri ömurlegt. Ég var á svo miklum bömmer yfir því hvað Buenos Aires væri yfirþyrmandi en aðallega yfir því að hafa smassað skjáinn á síma sem norska vinkona mín hafði lánað mér. Frá því að ég vaknaði um morguninn (eða eftirmiðdegið) sendi ég henni þess vegna skilaboð á klukkutíma fresti: „Sorry I broke your phonoe“ en hún sagði mér bara að get a grip og að drulla mér framúr (þetta var gamall sími). Á endanum (kannski daginn eftir eða hinn) fór ég fram úr. 

Ég skreið á fætur og skrifaði ritgerðir um mexíkóska hagkerfið, argentínskar bókmenntir og skellti mér svo í flug til fkn Patagóníu. Það var ágætt plan vegna þess að ég hafði verið með heimþrá.

Ég að lifa mína bestu lífi og reyna að fá blöðrubólgu (tókst smá).

Andersfjöll og firnindi

Patagónía er stórt landsvæði og þekkt bandarískt fatamerki. Ég fór reyndar aðeins rétt inn fyrir jaðar svæðisins, til Bariloche, og á því mjög, mjög, mjög, mjög margt eftir óséð. Loftslagið í Bariloche er ferskt eins og heima, með fjallasýn hvert sem litið er. Í vestri eru það Andersfjöllin sem tróna yfir með sínum hvítu snjóhöttum og köldu mynstri sem liggur niður með hlíðum þeirra. Ég þekki ekki nöfnin á hinum tindunum en veldið er þess háttar að ég þurfti að loka munninum handvirkt vegna þess að hakan leitaði alltaf niður.

Fyrsta morgunin vaknaði ég eldsnemma af værum svefni í þægilegasta rúmmi í Argentínu. Ég opnaði dyrnar á kojuskálanum á hostelinu til að fara á klósettið og mér til mikillar undrunar voru tréin í kring þakin snjó. Salernið er staðsett á ganginum sem er undir berum himni, svo til þess að pissa þarf því að fara „út“. Þrátt fyrir að vera í snípsíðum náttkjól varð mér ekki kalt, kannski ekki mjög heitt heldur en samt ekki eins ef það væri snjókoma í Reykjavík. Snjórinn hélt áfram að falla sem mér þótti ótrúlegt því hitastigið var langt yfir núll (held ég). Kannski skýrist það af því að Bariloche er í um 900 m hæð yfir sjávarmáli, eða  kannski bara vegna  þess að flest sem á sér stað í Argentínu er óútskýranlegt.

Selina hostel er best, sérstaklega þegar það snjóar. Gleymdi að taka mynd af arinneldinum.

Við Solrun höfðum ekki lesið okkur mikið til um svæðið áður en við komum (vegna dugnaðar við lærdóm) og þess vegna læddist ég niður í lobbíið á hostelinu og spurði hvaða göngu við gætum farið í (var komin í buxur).

Konan í lobbínu sagði mér að það væri snjór.

Einmitt, svaraði ég og spurði aftur.

Hún endurtók að það væri snjór.

Ég sagði henni að ég væri frá Íslandi, þú veist ís – land, útskýrði ég og reyndi að segja einhverja brandara án þess að uppskera svo lítið sem glott (mjög óþægilegt. Það kemur mér virkilega úr jafnvægi þegar ég reyni að vera fyndin og mæti þurru viðmóti). Konan starði bara á mig eins og ég væri auli rassagauli og benti mér á að fara á kaffihús og ég sagði bara ókei og hlýddi. Við Solrun fengum köku og kaffi með æðislegasta útsýninu og í kjölfarið leituðum við að gönguleið á korti sem ég hafði hnuplaði í lobbíinu en þá sá að við vorum komnar út fyrir kortið.

Eins og þið sjáið þá var hrikalegt veður.


Lalo frá Llao llao

Við ákvaðum að ganga eftir þjóðveginum (ekki svona highway to hell, heldur meira eins og vegurinn sem liggur í gegnum Þingvelli). Eftir nokkra göngu mættum við rakka með tunguna úti og dillandi skott. Ég spurði hvort hann héti Lalo og hann svaraði ekki neitandi svo þetta hlaut að vera Lalo. Hann gekk samferða okkur, leit til baka þegar við drógumst aftur úr og stoppaði svo við skilti sem á stóð „Llao llao upphaf gönguleiðar“. Lalo leiddi okkur áfram, leit iðulega á okkur ef hann tók framúr og stoppaði við útsýnisstaði sem beindu út að stöðuvatninu í Llao llao og fjöllunum í kring. Ég var því miður bara með banana og alfajor (argentínskt sætindi) og hann fékk því bara hálfan banana í laun (kannski ¾). Fjórfætlingar eiga ekki að borða sætindi.

„Hola“


„Banananammi“ 

„Mmm... sjáðu hvað ég er undirgefinn og sætur.“

Við enda gönguleiðarinnar varð eins konar kveðjustund, Lalo hoppaði og skoppaði og við knúsuðum hann og klöppuðum rétt áður en hann skottaðist á brott. Við, hins vegar, vissum ekki alveg hvernig við ættum að skottast aftur á hostelið svo við settum bara þumalinn upp í loft þar til ungt par frá Bariloche bauðst til að skutla okkur áleiðis.

Þessi mynd er tekin deginum áður eftir bjósmökkun. Ég vissi ekki að það væri strætóskýli 10 metrum frá mér.
Enginn stoppaði. Nokkrir tóku myndir. 

Þau sögðu okkur frá því að þau væru að læra í einhverjum atómskóla og að á lítilli eyju rétt fyrir utan bæinn hefði einhver Þjóðverji reynt að þróa efnavopn í kalda stríðinu. Já, en honum tókst það víst ekki og heimamenn skömmuðust sín svo mikið að þeir stofnuðu atómsskóla. Margir Þjóðverjar fluttu til Bariloche í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Áhrifin eru víða en það er til dæmis þýskur skóli sem var stofnaður af afkomendum ribbalda og arkitektúrinn á svæðinu líkist einna helst þýsku eða svissnesku skíðaþorpi.


Hótel á Llao llao (gisti ekki en það var víst hannað í stíl við fjöllin).

Nasistavibes á eftirstríðsárunum

Við lok helfararinnar var þáverandi forseti Argentínu, Juan Perón, ekkert sérstaklega mikið á móti nasistum. Hann hélt ýmis fasísk málþing í höfuðborginni og kannski bauð hann nasista velkomna til landsins. Ég skil vel að þeir komu, fjöllin og firnindin minntu ef til vill marga á heimahaga auk þess sem loftslagið eins og vítamín. En Argentína var jú alls ekki eina landið tók á móti þessu fólki, því fasismi er auðvitað svo ótrúlega þekkt stjórntæki, eins og sjá má í íslenskum samtíma. 

Leigubílstjórinn sem sótti mig og Solrunu á flugvöllinn sagði einmitt að pabbi sinn hefði skutlað SS foringjanum Heinrich Müller frá Bariloche til Chile á sínum tíma. Bílstjórinn sagði að ribbaldinn hefði verið að flýja Gestapo og greitt voða rausnarlega fyrir. Bílstjórinn sagði líka að karlfjandinn hefði viðurkennt að hafa átt hlut í voðalegum gjörðum í heimalandi sínu. Kannski fleygði faðir bílstjórans Müller út í eitthvað af heiðbláu stöðuvötnum svæðisins eða kannski komst karlófétið undan. Kannski er þetta þó allt saman bull rassagull en Gestapo náði Heinrich Müller allavega aldrei.

Unga parið frá Bariloche, sem við húkkuðum okkur far með, trúði okkur svo fyrir sögusögnum um að sjálfur Hitler hefði ekki fyrirfarið sér heldur flutt til Bariloche. Því til sönnunar sögðu þau að til væru gamlar ljósmyndir af manni á svæðinu sem líktist ófétinu. Sá kall dó úr elli. Þau báðu okkur um að vera ekkert að dreifa þessu áfram, að þetta nasistavibe setti svartan blett á bæinn. 

Ég get með sanni sagt að þannig eru vibin ekki í dag, allt fólkið sem ég kynntist var einstaklega næs, hugljúft og yndælt, meira að segja mjög margir fyndnir (ætli það sé ekki kalda loftslagið).

Leggið nafnið á þessum bæ á minnið. Skrifið það niður í dagbókina ykkar. Farið í messu á sunnudaginn og endurtakið það í huganum þar til þið opnið augun og eruð komi.

Parið sem tók okkur upp í var allavega æði, þau voru svo vingjarnleg og æðisleg að þau keyrðu okkur beint upp að dyrum. Þegar ég þakkaði þeim innilega fyrir sögðust þau gjarnan vilja fara til Íslands, þau hefðu nefnilega heillast af landinu í gegnum Ófærð á Netflix (eins og allir aðrir í Argentínu) og voru hrifin af öllu náttúrukláminu sem þar væri að finna. Þau sögðu ekkert um söguþráðinn svo ég bauð þau bara velkominn og hljóp svo framhjá konunni í lobbíinu sem hélt að ég væri auli rassagauli en Solrun gekk með reisn.

Morguninn eftir leigðum við okkur kagga á frábærri bílaleigu sem er staðesett inni á hostelinu. Þar var hlegið af öllum brandörunum mínum svo ég keypti dýrustu trygginguna.  

Bestu skandi bitches í Bariloche.


Hundurinn Ville

Seinasta daginn fórum við í aðra göngu, í útjaðri Villa La Angostura. Bærinn hefur að geyma þekkt skíðasvæði en í lok október var eiginlega allur snjórinn farinn. Það eru skíðalyftur í fjöllunum, skíðabarir í miðbænum og útivistavörur á hverju horni, svolítið eins og á Laugarveginum. Þegar við renndum í hlað var ég við það að frjósa út kulda af því ég hafði stokkið út í eitthvað ískalt vatn þar sem ég synti meðal silunga og hafði ekki náð að skipta um nærbuxur. Í bænum tókst mér að hafa fataskipti og þegar við vorum búnar að borða máltíð á túristaverði kíktum við á moldarveg sem leiddi okkur upp að bílastæði við rætur einhvers fjalls. Þar biðu okkar sautján hundar sem hringsóluðu hver í kringum annan og kona sem vakti yfir.

Vá, er þetta hvolpur? spurði ég konuna sem kinkaði kolli (eða hrissti höfuðið) og rukkaði okkur um 200 pesóa. Ég gerði ráð fyrir að það hefði verið verðið á bílastæðinu en eftir á að hyggja er ég hugsi.

Ville og Solrun í hlutverkaleik.

Gylltasti hundurinn skar sig úr hópnum, kvaddi hina rakkana þegar hann sá norrænu glókollana og elti okkur af stað. Hann var ekki alveg jafn ratvís og Lalo en mun kelnari. Við kölluðum hann Ville og hann tók því vel. Ville frá Villa La Angostura gekk svo þétt upp við mig að ég hrasaði einu sinni eða þrisvar og óskaði þess síðan að ég hefði fjórar fætur til að bera mig upp á endastöð. Við þurfum að klífa yfir allskyns tré sem höfðu fallið yfir gönguleiðina í hvirfilbyl eða verið rifin upp með rótum af risum.

Þegar við mættum öðrum göngugörpum lék Ville heimilishund og ég eiganda. Buenos días, sagði ég kannski og tók mjúklega um hnakkadrambið á honum eins og til að passa að hann færi ekki að angra aðra. Á bakaleiðinni var spenningurinn orðinn svo mikill að Ville stökk upp á mig og bauð mér að eiga sig. Ég útskýrði að vanalega byggi ég mið kettinum Piparosti sem hataði hunda af öllu hjarta en það var sem Ville hefði banana í eyrunum.

Sætasti og besti Ville okkar.
Sem í stund var okkar.

Hann lét sem ég hefði ekkert sagt þegar ég kvaddi, tróð bara tungunni út í loftið og ofandaði. Loks gekk hann fyrir kaggan okkar og sikksakkaði á moldarveginum fyrir framan okkur. Við keyrðum löturhægt og svo fylltist vegurinn af hænum og hönum og kálfa og beljum og ég fór að bipa alveg eins og asni. Loksins vék Ville undan og muuuuuu-in hurfu upp til fjalla. Ég bolaði öll dýrin á brott og leyfði svo nokkrum tárum að læðast út þegar Ville hvarf úr baksýnisspeglinum. Solrun táraðist líka (kannski af því hún hafði gleymt að skipta um linsuvökva en held samt út af Ville).

Ég held ég sé að komast yfir hann, Ville gerir þetta örugglega að staðaldri, fer gönguleiðina oft á dag með óteljandi túristum sem halda að þeir eigi hlutdeilt í honum. Leyfir þeim að gæla við sig og leika eiganda þar til hann finnur næstu.

í Argentínu er meee=muuu

Svo var allt búið og ég samdi ljóð á flugvellinum á leiðinni til baka:

Ömurlegt

Það er ömurlegt að fara frá Bariloche.
Ömurlegt.
Ömurlegt.
Ömurlegt!

Solrun gaf mér spa og nudd í afmælisgjöf. Ég = glöð í Bariloche.
Andar fjallanna

Áður en Solrun dró mig til Bariloche hafði ég hugsað mér að ferðast aðeins á heitari mið, í norðurátt. En eftir að ég kom heim (til Buenos), á ég það til að leggjast á gólfið í herberginu mínu og ímynda mér að ýskrið í gummídekkjum úti séu geltin í öndum fjallanna, að lyktin af sveittum mannfjölda í sumarsól sé frekar af felldum trjám og tærum vötnum með syndandi silungum. Ég skil nefnilega núna að köld gola er loftslagið mitt, fjöll og firnindi umhverfið mitt og syndandi silungar kitlið mitt.

Úps, gleymdi ég að minnast á að það er framleiddur  mikill bjór og klikk magn af súkkulaði í Bariloche?

Næst þegar ég flyt til útlanda flyt ég til Patagóníu, kannski til Bariloche, kannski sunnar. Ég þarf að gefa sjálfri mér það loforð til þess að geta haldið áfram. Buenos Aires er ágæt, frá því að ég kom aftur heim („heim“) óska ég sjálfri mér allavega til hamingju með lífið á klukkustunda fresti.

Ég veit ekki hvað ég geri núna, ég þarf allavega að klára úr kaffibollanum mínum og fara í partý sem er í kvöld. Því miður er partýið er ekki í Patagóníu, heldur í Buenos Aires.

Vandamálin í þessu lífi eru misjöfn.

xxx

Heidí

p.s:


Fólk sem sat á móti í smökkun: Vá Ísland æði
Ég: Mhm...
Fólk: Vá mig lagnar að labba á jökli jökli jökli.
(Barþjónn in the back: meira áfengi =meira tips)
Ég: Mhmmm... IPA
Fólk: Ófærð æði æði æði.
Ég: Elska Bariloche 
Þau: æði æði eldjall jökull vá.
Ég: Mhmmm... 25% tips
(úr súkkulaði- og bjórsmökkun í brugghúsinu Patagonia).

Comments

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins

Hætt öllu nema að dansa