Posts

Showing posts from September, 2022

Hætt öllu nema að dansa

Image
 Ég gerði mér ekki almennilega grein fyrir því að ég væri með aldurinn minn á heilanum fyrr í seinustu viku. Þá lagði ég af stað í ferðalag með gen z að fallegasta fossi veraldar, í skipulagðri ferð fyrir skiptinema í Buenos Aires þar sem hvorki var gert ráð fyrir svefni né öryggisbeltum. Rútuferðin tók kannski sólarhring og um kvöldið var slegið til veislu á þjóðveginum með standandi balli á annari hæð í blárri rútu sem brunaði þvert yfir Argentínu í átt að landamærum Paragvæ og Brasilíu. En fyrst vildu leiðsögumennirnir hrista hópinn saman og báðu því hvern og einn um að taka til máls í öndvegi rútunnar til þess að kynna sig, segja aldur, nám og svo lit: Grænn þýddi á lausu, gulur var óviss eða sæmilega á lausu og rauður var closed for business. Það voru fimm rútur í ferðalaginu og ég hafði asnast inn í ranga rútu þar sem ég þekkti engan. Ég átti því smá erfitt með að standa í báðar lappirnar og segja: „Hæ ég er þrjátíu ára fráskilin kisumamma“. Þannig ég nýtti bara undrunarópin sem

Seinustu sólargeislarnir

Ég sit úti á pinkulitlum svölum í risastórri borg, aftari stólfæturnir eru inni í svefnherberginu mínu en fremri fæturnir ná út á litla fermetrann minn sem liggur beint inn í borgarniðinn. Annar meðleigjanda minna finnst niðurinn yfirþyrmandi og er að leita sér að öðrum íverustað, ég vona að það sé ekki út af mér en ég held að það sé ekki hljóðbært milli herbergja. Blessunarlega er ég samt hætt að hrjóta eftir að hálskirtlarnir voru fjarlægðir úr mér fyrir rúmu ári og ég lærði að anda upp á nýtt. Háls-, nef- og eyrnalæknirinn sagði að kyrtlarnir mínir væru svo stórir að ég hefði andað vitlaust allt mitt líf. Þegar ég var lítil, kannski átta ára, skoðaði annar læknir stórvirkin og hrópaði upp yfir sig að kyrtlarnir væru eins og brjóstin á Pamelu  Anderson . En sá læknir sagði að ég myndi vaxa upp í þá og mamma sagðist skyldi útskýra seinna fyrir mér hver  Pamila  væri. Mamma gaf mér aldrei rauðan sundbol eða svoleiðis en tuttugu árum síðar var það óþarfi þegar ég losaði mig pamelurnar ú

Fyrst svarthol, svo svalir

Image
Eins og fram kom í seinustu færslu er ég í stöðugri leit að félagsskap. Það sem kom ekki fram er að ég var einnig í stöðugri leit að heimili. Fyrsta mánuðinn bjó ég í herbergi í ævintýralegustu bygginu á suðurhveli jarðar en þar voru veggirnir svo þunnir að ég heyrði andardrátt einstaklinganna sem leigðu herbergin við hliðina á mér. Einu sinni, þegar ég var nýflutt inn, vaknaði ég meira að segja við borhljóð og þegar ég opnaði hurðina á herberginu mínu sat kanadísk díva við borðstofuborðið, hristi á sér hausinn og sagði: „I can’t believe this.“ Við hurðina á herberginu hans var maður að bora lásinn af því litli vinurinn hafði farið á djammið, komið heim, farið út í búð og týnt lyklinum af herberginu sínu í leiðinni. Hann kom svo upp með borandi mann sem hann leit líklegast á sem sálarhjálp líka. Dívan kvartaði allavega hástöfum við aumingja manninn sem skildi ekki orð í enskunni hans. „It‘s five,“ svaraði ég og skellti hurðinni minni. Það er enginn hvítur hestur! Þess vegna fann ég ein