Fyrst svarthol, svo svalir
Eins og fram kom í seinustu færslu er ég í stöðugri leit að félagsskap. Það sem kom ekki fram er að ég var einnig í stöðugri leit að heimili. Fyrsta mánuðinn bjó ég í herbergi í ævintýralegustu bygginu á suðurhveli jarðar en þar voru veggirnir svo þunnir að ég heyrði andardrátt einstaklinganna sem leigðu herbergin við hliðina á mér. Einu sinni, þegar ég var nýflutt inn, vaknaði ég meira að segja við borhljóð og þegar ég opnaði hurðina á herberginu mínu sat kanadísk díva við borðstofuborðið, hristi á sér hausinn og sagði: „I can’t believe this.“ Við hurðina á herberginu hans var maður að bora lásinn af því litli vinurinn hafði farið á djammið, komið heim, farið út í búð og týnt lyklinum af herberginu sínu í leiðinni. Hann kom svo upp með borandi mann sem hann leit líklegast á sem sálarhjálp líka. Dívan kvartaði allavega hástöfum við aumingja manninn sem skildi ekki orð í enskunni hans.
„It‘s five,“ svaraði ég og skellti hurðinni minni.
Það er enginn hvítur hestur!
Þess vegna fann ég einstaklingsíbúð sem ég leigði í mánuð án þess að skoða vegna þess að þannig virkar Airbnb. Ég var með mikla preferenca um hverfi en hefði kannski átt að vera kröfuharðari á heitt vatn, rakaskemmdir og rafmagn. Mig langaði að gráta en mér fannst íbúðin ekki nógu notaleg til að láta verða af því. Mér fannst hún heldur ekki nógu notaleg til þess að borða, sofa eða fara í sturtu því heita vatnið virkaði eiginlega ekki. Ekki heldur ofninn. Rafmagnið virkaði varla. Til þess að hjálpa mér sagði svona húsvörður í bygginguni að innstungurnar væru bara ögn skakkar og það þyrfti því bara að jugga hleðslutækinu smá til. Svo reyndi hann að líma hleðslutækið við innstunguna.
Ég sat því alla daga vikunnar, ein á kaffihúsi í San Telmo að bíða eftir því að leigusali á hvítum hesti brokkaði í átt að mér. En eftir næstum þrjátíu ára bið vissi ég að það var enginn helvítis hvítur hestur. Heldur þurfti ég bara að brokka sjálf um helvítis leigumarkaðinn og lagði höfuð í bleyti í rakaskemmdunum í rúminu mínu yfir hvernig ég gæti fundið sem þægilegasta heimilið á sem allra allra allra skemmstum tíma.
Svalir og betra líf
Ég bað alla sem mér datt í hug um hjálp. Til dæmis, keypti ég mér jakka í einhverri second hand búð og talaði við konuna í hálftíma á meðan ég lék við kettlinginn hennar. Fyrir nokkrum dögum fór ég aftur í búðina og bað hana að aðstoða mig að finna heimili. Ég spurði líka þá fáu félaga sem ég þekkti að hjálpa mér og konuna sem þreif sameignina í svitaholunnni sem ég bjó í.
![]() |
Kom með viðvörun fyrir nýju roomies: Otro loco más - einn vitleysingur í viðbót. |
Að reyna að eignast vini og heimili á sama tíma getur verið smá yfirþyrmandi: Hæ, viltu hittast í kaffi? Má ég flytja inn með þér?
En loksins gerðist það.
Loksins tölti ég í átt að miðbænum og fann fellow skiptinema sem hafði farið á stökki um alla borgina og fundið fallega íbúð með aukaherbergi til útleigu. Ég flutti inn í gær. Íbúðin er með margra metra lofthæð og svölum í svefnherberginu.
xxx
P.s. Ef þið viljið endilega heyra röddina í mér þá var ég með pistil í Lestinni á Rás 1 um peningaplott á blá markaðnum í Buenos Aires. Þið getið líka heyrt í mér næstu mánudaga í Lestinni.
![]() |
Þvotturinn og svalirnar (möst að þvo allt sem var inni í svitaholunni) |
p.s.s. Ég vil ekki deila myndum af svitaholunni. Vil ekki skemma daginn ykkar.
Comments
Post a Comment