Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Ísköld vindgola og bráðnandi jöklar. Lúpínur eru illgresi og fuglasöngur heldur fyrir mér vöku undir dúnsæng í skála fullum af kojum. Í þjóðgarðinum Nahuel Huapi leynast puma kettir og við jökulklætt eldfjallið renna óteljandi gruggugar sprænur meðfram gljúfrum með gúmmíbátum og farfuglum með grænar, brúnar og bleikar bringur. Langir stilkar marglita lúpína skjóta niður rótum meðfram ám og brúm þar sem flugustangir dansa í höndunum á heimamönnum og það er silungur í kvöldmat og ég er komin aftur suður á boginn þar sem beljurnar mæta mér á þjóðveginum og lungun fyllast af fersku lofti og augun af slípuðum perlum.

h
Hér er ég best geymd.

Bless bless Buenos 

Buenos Aires er byrjuð að fölna inn í fortíðina og óteljandi fjallstindar eru orðnir að fasta. Áður hét þessi hjartastaður minn Vuriloche sem þýðir á Mapuche: Fólk sem er umvafið fjöllum. Mapuche fólkið laggði fyrir löngu síðan undir sig landið sem tilheyrir núna bæði argentínsku og sílesku Patagóníu en svo tók spænska tungan völdin, eins og víðar, og breytti nafninu í Bariloche. 

Mapuche fólkið býr þó enn á svæðinu en nafnið á þjóðflokknum þýðir einmitt fólk landsins- jarðarinnar, þar sem „Mapu“ er jörð/land og „che“ þýðir fólk. En fólk jarðarinnar og argentísk stjórnvöld eru búin að eiga í einvherju voðalegu og viðverandi drama, með samningaviðræðum og peningaskiptum sem ég hef  ekki náð að koma mér alveg nógu vel inn í (ég er nefnilega að lesa bókina The subtle art of not giving a fuck eftir Mark Manson og þess vegna að reyna að halda mér frá öllu drama).


Lucky number 10

Hæ hæ ferskir vindar og Lionel Messí

Ég er stödd í San Cristobal de Bariloche, heimili súkkulaðisins, Patagóníu bjórsins með náttúruperlur hvert sem litið er. Þetta er auðvitað vinsæll ferðamannastaður bæði með sumarblíðu og skíðasvæði á veturna. Seinast þegar ég dvaldi hér þá snjóaði en núna mætti ég í stuttbuxum. Það eru samt ekki margir aðrir í stuttbuxum, fólk sem er með hitabeltisblóðrás klæðist til dæmis dúnúlpum.

Flugvélin mín lenti örfáum klukkustundum eftir að Argentína hafði sigrað Mexíkó í heimsmeistarakeppni karla í fótbolta. Í Argentínu er Diego Maradonna í guðatölu (eða er guð?) og Linoel Messí er Messías, heimsmeistaramótið er því jafn alvarlegt og sunnudagsmessa hjá mjög kaþólsri fjölskyldu, eða jólin. Þess vegna hefði ég kannski ekki átt að minnast á ást mína á Mexíkó í aðdraganda leiksins því enginn hafði húmor fyrir því. Enginn. Í kjölfarið bárust mér nokkrar hótanir í DM svo ég þaut út á götu í Once, þar sem ég bjó í Buenos Aires, og keypti mér bol númer tíu eins og hálf þjóðin hafði gert. Svo hrópaði ég Messi(co) langt fram eftir nóttu þar til ég lenti  í Bariloche við sólarupprás. Stemningin stóð enn á götum úti og þegar ég andaði að mér ísköldum vindinum fann ég hvernig heilastöðvarnar lýstust allar upp. Perurnar sem höfðu legið í dvala, undir sveittu laki í steypulögðum frumskógi stórborgarinnar, kviknuðu á ný. 

Þær sprungu á stundinni.

Þetta yrði daglegt brauð í Bariloche.

Kofi við vatnið, kajak, snjóbretti og ég verð að flytja...

Ég er svo léleg að ferðast því ég er alltaf að reyna að koma mér fyrir. (eða sko ef ég fæ svona Ahh tilfinningu eins og ég hef fengið á Íslandi, í Messíkó og í umhverfi Bariloche). Í gær hitti ég stelpu sem hafði ferðast í sex vikur um Patagóníu, um jökla, fjalllendi, firnindi, ár, vötn, dýralíf og ég veit ekki hvað og hvað og hvað. Ég hafði ætlað mér að vera í Bariloche í þrjá-fjóra daga og reyna að vera dugleg að ferðast en nú eru dagarnir orðnir óteljandi og ég er næstum því búin að kaupa mér lítinn kofa við stöðuvatnið sem er þrisvar sinnum stærra en Buenos Aires, með útsýni yfir snjóhvítar gárur og skógi vaxnar eyjur. Ég myndi vakna á morgnanna og róa út, kannski veiða silung á flugustöng sem ég myndi borða hráan með hrísgrjónum, fá mér ritvél og skrifa þar til blöðin fykju í vindhviðunni út í vatnið og ég stykki út í á eftir blaðsíðunum í nístingskulda og þá myndi einhver patagónískur foli stökkva á eftir mér og ... Ég er flogin svo langt af stað að áðan þegar ég fór út í búð var hér um bil búin að bjóða ókunnugi fólki í matarboð í litla kofann minn. Ég var næstum búin að segja þeim frá varðeldi við kolagrill þar sem ég biði þeirra með silungsflök, böðuð í fjallagrösum, með hvítvíni frá Mendoza og Fernet í forrétt því við erum í Argentínu og jafnvel þó að mér finnist dulce de leche of sætt á bragðið yrði það í eftirrétt því ég myndi gera allt til að falla inn í suðrið. Á veturna opnar skíðasvæðið svo ég þarf líklegast að eiga bíl og snjóbretti og finna mér fleiri hobbí til að ná að komast vel inn í samfélagið og fólkið var farið úr búðinni svo ég keypti mér bara Fernet fyrir sjálfa mig.

Helvítis túristi

Ég vil nefnilega ekki vera einhver helvítis túristi eins og í gær þegar ég fór í rútuferð með leiðsögumanni sem sagði mér sautján sinnum að muna að míga á hverju stoppi rétt eftir að ég missti yerba mate út um allt bílgólf. Ég skil vel að hann hafi hrist hausinn yfir mér þegar hann aðstoðaði mig við að sópa telaufin af gólfinu og bannaði mér  að reyna að vera argentínsk í bili. Einbeittu þér bara að ferðalaginu, sagði hann, augnablikinu, og ég reyndi að færa framtíðina úr höfðinu á mér. Leiðsögumaðurinn hjálpaði til og leiddi mig að hvern steinbroddinn á fætur öðrum með besta útsýninu fyrir instagram en aumingja maðurinn vissi ekki að síminn minn væri mölvaður og með hálfbilaðri myndavél. En kannski hafði maðurinn komið auga á filmumyndavélina sem ég var með í fórum mínum, vélina sem ég keypti einu sinni í Messico en kann ekkert á. Ég tók samt margar myndir á hana sem ég vona að heppnist vel svo ég geti rammað þær inn og hengt upp í kofann minn við vatnið og sagt: Æj, að hugsa sér, þarna var ég að sjá heiminn minn í fyrsta skipti. 

Hér eru jöklarnir ekki röndóttir vegna ösku heldur vegna sandfoks, held ég.


Vill einhver patagónskur ættleiða mig, plís?

Núna þarf ég þó að sætta mig við kofaleysið og er sátt í bili undir dúnsænginni á Selina hostelinu. Selina er hostelkeðja sem er með hipsterahallir út um alla Rómönsku-Ameríku, þetta er mjög fancy valkostur fyrir hostel að vera. Það er æðislegt því hérna er fólk á mínum aldri. Hostelið er eins og fjallakastali á fjórum hæðum með upphitaðri sundlaug í garðinum sem ég sæki daglega. Og í morgun var ég einmitt að hugsa að upphitaðar sundlaugar væru ef til vill ein besta uppfinning mannkynsins. Eitthvað sem Íslendingar eru til dæmis agalega góðir í. Og þegar ég var búin að fara í sturtu og hafa fataskipti mætti ég ferðalangi sem hafði einmitt farið í óteljandi heitar laugar á Íslandi í apríl síðastliðinn. Hann sagði mér að hann hefði leigt bíl í tíu daga á og séð allt. Ég sagðist öfunda hann því ég væri svo léleg að ferðast en aðallega í því að sjá allt. Hann sýndi mér myndir úr símanum sínum frá Íslandi þar sem ég sá að hann hafði virkilega séð allt, eða svona eins og þegar man sér ísjaka. Ég brosti bara og hugsaði um allar þessar nýju lúxuslaugar sem ég hafði ekki séð á öllum þeim tíu dögunum sem ég hef dvalið á Íslandi.

Stundum held ég að svona bakpoka-sjá allt-ferðalög eins og ferðalangurinn stundaði væru einfaldari lausn en mínar hugmyndir. Það er kannski óraunhæft af mér að ætla að öll samfélög, menningar og þjóðerni sem ég stíg inn í vilji ættleiða mig, sér í lagi þegar ég kem frá samfélagi sem myndi kannski ekki fá nóbelsverðlaun fyrir að innvolvera aðkomufólk inn í sinn heim. En mér tókst þó að klöngra mér upp á argentínska stelpu á hostelinu og fara með henni í afmælisveislu í borginni sem er umvafin fjöllum. 

Ég gapti allan tímann því suðrið er svo líkt norðrinu. Á einhvern hátt er fólkið líka svipað, svona ró, eða hlédrægni á yfirborðinu eða einhver vinaleg aura sem ég elska, svona aura sem gerir mig óvissa um að fólkið myndi heilsa mér úti á götu ef ég kinkaði til þeirra kolli í næsta skipti sem ég sæi þau, ég myndi ekki taka því persónulega því ég veit hvaða áhrifi kuldinn og smæð samfélaga getur haft.

Kannski er ég skaðlegasta týpan af túrista? 

Kannski er betra að fara bara á hótel sem er aflokað heimasamfélaginu með girðingu og horfa á dansatriði frá frumbyggjum svæðisins og klappa og segja Vá og leyfa samfélögunum að vera í friði, leyfa fólki að lifa sínu lífi, vera þau sjálf en ekki eitthvað sögusvið fyrir dreymandi íslenska stelpukind með ritvél, hvað haldi þið?
Hafi þið pælt í að kisur eru svolítið eins og karlmenn? 

Himinhvolf

Ég er stödd í heimi á hvolfi og er ekki frá því að ef ég myndi dýfa mér ofan í gíg á einu af jökulklæddu eldfjöllunum hérna, myndi ég enda í Keflavík. Þetta er eitthvað sem ég er að íhuga að gera því ég hef aldrei heyrt um að neinn hafi prófað þetta, nema kannski rithöfundurinn Jules Verne. Kannski, skrifaði hann bókina Ferðin að miðju jarðar með einmitt þetta í huga, sko að í Snæfellsjökli væru göng sem leiddu til Patagóníu, því eitthvað er miðpunktur alheimsins þá er það Patagónía (ekki Vesturbæjarlaug). 

En allavega ég, argentínska vinkonan af hostelinu og önnur sænsk skvís gerðum samning okkar á milli um að eftir þrjú, kannski fjögur ár, munum við kaupa jörð við Ríó Negró, umvafða fjöllum, og byggja litlar cabañas, eina á mann. Ég með kettinum mínum og svo ættleiði ég auðvitað hund og kaupi mér kajak og snjóbretti og ritvél og lifi því lífi sem ég vil lifa. Lifi því lífi sem ég á skilið að lifa. 

Kannski fer ég þá á þetta þrotaða tinder og finn mér patagónskan mann, ekki til að giftast, bara til að hoppa á eftir mér og handritinu mínu út í nístingskalt vatnið að vetrarlagi og synda að skógi vaxinni eyju þar sem við geymum kajakana okkar og kannski munum við búa innan um tamda hesta eða villtar puma kisur. 

Holy place.

Brasilía bíður mín handan við ferðalagið og líka salteyðimerkur í norðurhluta Argentínu. Helst langar mig þó að fleygja dagatalinu mínu ofan í frosna hraunbreiðu og hjúfra mig undir dúnsæng í vindgolu með útsýni yfir snjóhvítar gárur, umvafin Andesfjöllunum í suðrinu sem er norður. 

xxx

Heiða

Að lifa.


P.s.

Kannski mun ég þó vilja koma mér fyrir í salteyðimörkini og það er aldrei að vita hvort ég verði farin að reyna að taka viðbótarlán fyrir eign á Coba Cabana, byrjuð að tala portúgölsku og dansandi samba. Ég kaupi mér mánaðarlega miða í Happdrætti háskólans svo það er aldrei að vita ...

Ég held að ég sé best geymd umvafin fjöllum.


Þetta er Daisy, hún er búin að ferðast í bíl frá New York í gegnum Mið- og Suður-Ameríku og stefnir alla leið á heimsenda. Hún er duglegur túristi og sætasti túristi sem fyrirfinnst á jarðríki. Ég held hún sé himnesk og þegar ég spurði hvort hún vildi ættleiða mig, eða ég hana svaraði Daisy: Sama og þegið litla stelpukind.






 

Comments

Popular posts from this blog

Töfrar lífsins

Hætt öllu nema að dansa