Töfrar lífsins

Blessunarlega var símanum mínum rænt þarsíðustu helgi svo ég gat ekki auðkennt mig með rafrænu skilríki til þess að sækja um listamannalaun, ég gat ekki heldur fylgst með gangi tímans og gekk þess vegna bara út í buskann með niðinn í götunni í eyrunum. Engin tónlist, engar fullkomnar fjölskyldur á samfélagsmiðlum og ekkert annað prump til að ýta undir óraunhæfar væntingar til lífsins.

Örfáum mínútum eftir ránið.

Ég settist á kaffihús skammt frá heimilinu mínu sem var fullt af fólki og dagblöðum, pantaði mér rótsterkt espresso með media luna og fletti yfir ótal umfjallanir um forsætisráðherrann, Cristinu Kirchner. Aumingja konan var vægast sagt rökkuð niður í gröfina en ég hugsaði fallega til hennar. Sérstaklega eftir að hafa orðið fyrir ráninu var ég henni þakklát, það jafnast nefnilega ekkert á við nýpressaða peninga. Þegar ég sæki mér seðla (í gegnum Western Union) líður mér eins ég sé komin aftur í sjöunda bekk og byrjuð að bera út Fréttablaðið. Marglita blekið er næstum því enn blautt og seðlarnir svo lausir við bakteríur að ég get geymt þá inni á brjóstahaldaranum áhyggjulaus. En auðvitað er peningaprentun og verðbólgan hérna ekki fyndið fyrirbæri; óvissan, skorturinn og hungrið sem hún skapar er háalvarlegt mál. Það ættu allir íslenskir lesendur að geta skilið örlítið, en á meðan verðbólgan á Íslandi nálgast 10% fyrir árið eru væntingarnar í Argentínu í kringum 100% fyrir 2022.




 

Tíminn og vekjaraklukka

 

Þar sem ég sat og saup á kaffinu leið tíminn á sínum eðlilega hraða. Ótrúlegt en satt fann ég fyrir einhvers konar ró. Ég var ekkert trámatiseruð eða svoleiðis því ránið kvöldinu áður hafði verið tiltölulega mannsæmandi. Ég hafði verið búin að eignast svo mikið af vinkonum að ég endaði laugardagskvöldið á einhverjum alræmdum open air reggaeton klúbbi í útjaðri Buenos Aires. Nýju vinkonur mínar fóru í sleik við allskonar gaura en ég einbeitti mér að því að halda meðalaldrinum uppi.



Fyrir rán

 

Á klúbbnum voru stripparar á sviðinu og ég geymdi símann, veskið og ökuskírteinið (!) í agnarsmárri mittistösku sem lá beint við vinstra brjóstholið. Upp á síðkastið hef ég passað verulega upp á að hleypa engum nálægt þeim stað og var því heldur hissa þegar einhverjum hefði tekst að renna frá og smeigja sér þangað inn án minnar vitundar. Þjófurinn skildi veskið og ökuskírteinið þó eftir og er ég honum því ágætlega þakklát. Auk þess var síminn þess konar að hann þurfti að hlaða þrisvar sinnum á dag og var þetta því ákveðinn léttir (hleðslubankinn er frekar fyrirferðamikill). Ein af norsku vinkonum mínum var umtalsvert leiðari því hennar sími hafði verið allt í senn nýr og dýr og pró.

 

En ég kom ekki til Argentínu til að fara á reggaeton klúbba og þess vegna gerði ég mér grein fyrir því að ég þyrfti að finna út úr mínum málum sem fyrst, umfram allt finna vekjaraklukku. 


Ég borgaði fyrir kaffið og hélt af stað heim á leið.

 

Hringiða heimilisins

 

Sem betur fer bý ég ekki í efnuðu hipsterahverfi eins og megnið af skiptinemunum. Ég á heima í heldur í líflegu og hráum hluta í borginni miðri með þrem öðrum útlendingum.  Tveir þeirra eru frá sitthvoru ríkinu innan breska heimsveldisins og er spennan því hæfilega heimilisleg (heima tölum við þó einungis spænsku).

 

Fyrst hélt ég að hverfið okkar væri indverskt því í beinni sjónlínu af svölunum í herberginu mínu má sjá verslun merkta með om. Í kring eru ótal búðir með reykelsum, hindískum trúarlíkneskjum og fötum sem Europhippi myndi klæðast, á meðan hann segði sögur af því hvernig hann hafi frelsast í hugleiðslu-retríti eða með öðrum hugbreytandi leiðum í Nepal eða á Indlandi. Ég nefndi þessa kenningu mína við annan meðleigjandann frá heimsveldinu sem sagði Ha? Við búum í heildsöluhverfinu. Það er kannski satt, í götunni aftan við heimilið er full af búðum með batteríum, og aðeins lengra frá eru fjölmargar búðir sem selja aðeins saumaefni og í gær rankaði ég við mér í stræti rétt hjá þar sem hver einasta búð selur einungis gínur. Hinn meðleigjandinn frá heimsveldinu var hins vegar viss um að við ættum heima í gyðingahverfinu. Ég get ekki neitað því, við hliðina á húsinu okkar er sínagóga og svona 60% af straumnum sem rennur um götur hverfisins eru menn með langt skegg og hatta eða konur í síðum pilsum með tilturelga vel til höfð tögl. Hér eru líka allmargar matvörubúðir merktar sem Kosher. Þriðji meðleigjandinn, sem er frá Þýskalandi, sagði að hún sæi hverfið okkar sem símahverfið vegna allra símavarahlutabúðanna.

 

húsið mitt er þetta sem er ekki trúarhús




Motorolla draumurinn


Eftir kaffihúsið hoppaði ég heim og sótti nokkra nýpressða seðla sem ég kom kyrfilega fyrir inni á brjóstahaldaranum. Ég trítlaði svo niður stigann af þriðju hæð því fyrir ofan við lyftuna er skilti sem á stendur að notendur hennar stígi inn á eigin ábyrgð. Lyftan er auðvitað handvirk eins og flestar lyftur í Buenos Aires með tveim rennihurðum sem opna þarf á eigin spýtur og loka við notkun. Stundum heyrist brak eða brothljóð. Þegar ég kom út á götu starði ég á tærnar mínar, á nike inniskónna sem Spori hafði japlað aðeins á skömmu áður en ég fór frá Íslandi. Whatever, hugsaði ég og gekk fram hjá fimm síma-varahlutabúðum og spurði einhvern hvar ég gæti fengið síma. Maðurinn sem ég spurði þagnaði áður en hann benti mér á að fara í verslunareiningu fjórum húsum frá.

Viðvörun

  

Einingin var svolítið eins og ég ímynda mér að Hlemmur mathöll væri á Þorláksmessu, allt út í básum, aðeins of hljóðbært og of mikið af manneskjum. Ég spurði á hverjum básnum á fætur öðrum um síma til sölu sem virkaði og kostaði ekki meira en 3.500 (ég þurfti bara vekjaraklukku). Starfsmennirnir sögðu alltaf fyrst nei en svo þegar þau sáu útganginn á mér litu þeir kannski í kringum sig og sýndu mér svo lítið úrval af símum. Við einn básinn kom tannlaus kona með ofboðslega nýjan og dýran og pró síma sem gæti verið frá Noregi. Hún spurði hvað myndi kosta að aflæsa honum og afgreiðslukonan leit á mig hneiksluð á svip áður en hún sagði þeirri tannlausu: Við gerum ekki svoleiðis hér. Svo seldi afgreiðslukonan mér motorolla snjallsíma með brotinn skjá á 3.500 krónur íslenskar og aðstoðaði hina konuna í kjölfarið.

 

Dauða húðin á fingurgómunum


Kaupin mín voru kannski ekki samkvæmt siðferðisreglum kirkjunnar en ég er utan trúfélaga og satt best að segja finnst mér þessi keðja ekkert verri en hver önnur (dæmi um vörur sem eru fengnar á verri hátt: föt, kjöt, kaffi, súkkulaði, ál, ný raftæki o.s.frv.). Það sem mér finnst þó siðferðislega rangt er að kalla hagkerfi eitthvað hringlaga, eins og hjól eða hringrás eða eitthvað þannig kjaftæði þegar þetta er augljóslega frekar eins og fæðukeðja (ekki gleyma að ég er með gráðu í hagfræði og veit að eina ástæðan fyrir því að ég er með fullkomnar tennur er af því aðrir eru það ekki).

 

Ókostur og á sama tíma kostur búsetu minnar í hráa hverfinu er að það er kona flutt á útitröppurnar mínar til að minna mig stöðugt á staðsetningu mína í fæðukeðjunni. Ég veit að það er erfitt að koma auga á eigin forréttindi og þess vegna er kannski ágætt að fá daglega áminningu um þau. Undanfarið er mér samt búið að líða eins og ég sé prinsessan á bauninni, prinsessa með íslenska peninga sem margfaldast í skrilljón seðla og sturlaðan kaupmátt. En eftir að konan flutti á tröppurnar er baunin farin að segja svo mikið til sín að ég ákvað að fara í göngutúr í Palermo til þess að reyndi að losa um hnútinn. Í Palermo eru flestir á svipuðum stað og ég í fæðukeðjunni, þar er mikið af grænum svæðum þar sem grasið er vökvað og hundaskíturinn þrifinn af gangstéttinum. 


Ég reyndi að losa um hnútinn í bakinu yfir Apperol Spritz og fór svo í handsnyrtingu á snyrtistofu við götuna Jorge Luis Borges. Þar náði ég að slaka aðeins á bakinu á meðan ókunnug kona plokkaði dauða húð af fingurgómunum mínum.


Já, andstæðurnar eru miklar í borginni og hvorki hverfið mitt né Palermo eru endilega lýsandi fyrir Buenos Aires, hvað þá Argentínu, bara litlir hlutar, eins og agnarsmáar tilviljanir í löngu lífi.

Það er ruglandi að lesa of mikið.
Takk fyrir að lesa bloggið.

  

 

Töfraraunsæi eða lífið?

 

Með brotna motorolla símanum tókst mér næstum því að mæta á réttum tíma í skólann, í tíma í argentínskum bókmenntum. Mig langar að éta heilann á kennaranum mínum sem ég er eiginlega viss um að hafi gætt sér á heila þjóðskáldanna Jorge Luis Borges og Julio Cortazar. Skáldin tvö skrifuðu verk sem oftast eru flokkuð undir töfraraunsæi eða súrrealisma eða guð má vita hvað því þeir vildu ekki láta flokka skáldskapinn sinn.


Cortazar sagðist sýna raunveruleika í verkum sínum og þvertók fyrir að það að vera skrifa einhverja töfra, þ.e. einhvers konar frávik frá raunveruleikanum. Cortazar á að hafa sagt (ég hef þetta beint upp eftir kennaranum með fína heilann) að það væri óþolandi hvernig mannskepnan sæi hið óútskýrða sem einhvers konar frávik; að tilviljanir, allt það sem á sér stað utan hins skipulagða ramma sé undantekning við raunveruleikann (mig langar svo mikið að éta heilann hans líka enda sagði sálfræðingurinn minn einu sinni að ég heillaðist aðallega að heilum. Cortazar er því miður löngu látinn og var kannski ekki beint mín týpa, að öðru leyti en í skáldskapalistinni).

Julio



Hugsa, hugsa

Hugsa, hugsa

  

Í Buenos Aires búa um 16 milljónir manns, ég fer um allskonar hverfi í mínu daglega lífi og á allskonar viðburði eða whatever. Frá því að símanum mínum var stolið hef ég í miklum mæli verið að rekast á fólk sem ég þekki smá á handahófskenndum stöðum í borginni. Ég þekki auðvitað mjög fáa svo þetta er kannski frávik frá því er þykir eðlilegt. Já og þessar skrítnu tilviljanir hafa fengið mit til að hugsa mikið, hugsa og hugsa.


Kannski er ég þó bara að hugsa svona mikið af því ég er alveg að verða þrjátíu ára og þó svo að aldur sé afstæður og allt það þá hef ég ómeðvitað verið að staðsetja sjálfa mig í lífinu. Til að vera væmin eða einlæg eða whatever hafði ég séð fyrir mér að ég yrði á allt öðrum stað á þessum tímamótum í lífinu. Þegar ég varð 20 ára bjó ég í Mexíkó og ætlaði að bjarga heiminum með því að berjast með hagfræði í dragt og þegar ég varð 25 ára fékk ég mér kampavín með Helgu og allskonar fólki í þakíbúð í fínasta hverfi Mexíkóborgar. Þá var ég held ég hætt við að berjast í dragt, langaði minnir mig aðallega í kærasta (ég man það ekki alveg því þá var ég ekki með blogg og ef maður er ekki með blogg getur maður ekki endilega vitað hvað maður hugsaði í fortíðinni).


Fyrir ekki svo löngu gerði ég mér svo upp væntingar um einhverskonar stabílitet. Það var gríðarlegt sjokk þegar þær brugðust, ég á ekki við ástarsorgina heldur sjokkið þegar fantasían um hálfplönuðu framtíðina hvarf. En svo fékk ég tölvupóst um laust pláss í skiptinám í Argentínu og nú sit ég á þriðju hæð í blokkaríbúð í Buenos Aires með borgarniðinn í eyrunum.


Hérna hefur reynst mér ómögulegt að gera mér upp væntingar til morgundagsins, verðin breytast frá degi til dags og borgin með. Ég flýt bara áfram og verð furðu lostin þegar ég mæti fólki í strætó sem ég er nýbúin að kynnast. Ég villist auðvitað margoft og verð stundum fyrir ögn áreiti sem getur verið virkilega þreytandi en gleymi því fljótt þegar ég ramba inn á leiksýningu í úrsérgengnri byggingu eða rekst á skáld sem selur ljóð á tombólu. Svo vakna ég kannski upp frá undarlegum dagdraumum eða veruleikanum (ekki viss) í götu fullri af gínum sem ég hafði ekki hugmynd um að lægi að heimilinu mínu.


Gínur


Væntingar eru óþolandi

 

Núna, eftir kóvid og í verðbólgustorminum heima, sýnir einhver könnun að Íslendingar hafa aldrei verið óhamingjusamari. Ég þekki ekki rannsóknina en get ímyndað mér að í þessu landslagi sé erfiðara að uppfylla hinar „basic“ íslensku væntingar, þið vitið; fá sér gráðu, finna ástina, kaupa íbúð, eignast heilbrigð börn, gefa út metsölubók, fá listamannalaun eða komast upp einhvers konar metorðastiga í atvinnulífinu. Og eftir því sem það verður erfiðara að ná þessum prumpuvæntingum verða vonbrygðin auðvitað fleiri, leiðin í óhamingjuna styttri.


Eftir að hafa hugsað ofsa mikið hef ég ákveðið, í fyllstu einlægni, að reyna hætta að stýra eigin vellíðan út frá hvers konar prumpuvæntingum. Ég er samt ekki alveg lögst í helgan stein eða svoleiðis og ætla alveg að gera einhverjar væntingar (til dæmis til my one true love: skáldskaparins). 


Á morgun ætla ég að ganga inn í fertugsaldurinn með fókusinn á hið óútskýranlega, á töfrana í þessu litla lífi sem eru alveg jafn stór hluti af raunveruleikanum og hvað annað.

 

Góðar stundir.

Ykkar, Heiða (Heidy)


Happy afmæli para mí

P.s. 

Ætli ég þurfi ekki að skreppa yfir götuna í eina af þessum om búðum og kaupa mér Eurohoppaföt til að geta klætt mig upp áður en ég segi ykkur öllum frá því hvernig ég frelsaðist úti á svölum á þriðju hæð í blokkaríbúð í Buenos Aires.


P.s. tvö

Fyrir þá sem eru líka obsessed á argentískri skáldskaparlist þá gerði ég nýverið pistil í Lestinni á Rás 1 um Borges og fleiri frá Buenos: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/lestin/23619/7hr91c/borges-og-adrir-bokabeusar-i-buenos-aires


Mæli líka með bókinni Smásögur Heimsins: Rómanska-Ameríka í ritstjórn Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur, Rúnars Helga Vignissonar og Jóns Karls Helgasonar.






Comments

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Hætt öllu nema að dansa