Buenos Aires er best


Fyrir stuttu (fimm dögum) flutti ég til Argentínu. Ferðalagið hófst á hádramatískan hátt þegar ég gerði mér grein fyrir að ég hefði ekki sótt um túristavisa til þess að mega millilenda í Kanada. Ég hló hysterískum hlátri á Leifsstöð og starði á mömmu mína sem hafði keyrt mig til að kveðja og svo spurði ég hvort ég mætti fá far aftur heim og hún sagði Já. Flugfélagið hló líka og gaf mér nýtt flug sólarhring síðar (endurgjaldslaust) og sagði Afsakið að þú sóttir ekki um visa. Daginn eftir gekk allt eins og í sögu, því ég hafði keypt dýrt flug og þess vegna vildi flugfélagið bara gefa mér meira og meira. Ég lagði semsagt af stað út í heim, með nýja miða, eins og ekkert hefði í skorist, ældi reyndar þrisvar í flugvélinni á leiðinni til Toronto en fékk mér svo nudd á flugvellinum í Montreal og embanada í São Paulo. Þega ég komst loks á áfangastað, á flugvöllinn í Buenos Aires, skammaði ég sjálfa mig fyrir að hafa ekki lagt nógu mikinn pening fyrir til þess að geta áhyggjulaus keypt mér Ray Ban gleraugu á 200 dollara og fór svo að færibandinu með ferðatöskunum. Eftir þrjár mínútur voru allar töskurnar komnar nema mín og ég andvarpaði svo hátt að flugvallastarfsmaður sagði Afsakið að taskan þín týndist þú færð 200 dollara í sárabætur. Mér leið eins og ég hefði manifestað þessu. En allavega, flugfélagið hélt semsagt áfram að ofdekra mig og gaf mér 24 klst. til þess að sýna fram á fatakaup að andvirði 200 dollara.

Á 16. hæð þar sem ég bý eru risa svalir.


Don’t worry

Fyrstu nóttina mína í nýja landinu gisti ég á sæmilega óhreinu hosteli sem ég hafði pantað af því að þar var sundlaug. Sundfötin mín voru hins vegar einhvers staðar milli Keflavíkur, Kanada og Brasilíu auk þess sem það er vetur hérna, ekki samt alvöru vetur en nógu kalt til að fara ekki í kalda sundlaug. Morguninn eftir klæddi ég mig í skítugu fötin mín úr fluginu og gekk af stað í skólann (guð blessi mig því ég hafði tekið með mér auka nærbuxur og lýsi í handfarangri). Eftir kynningu fyrir skiptinema í skólanum átti ég enga vini en þegar ég stóð upp tók það mig fimmtán mínútur að komast inn í mexíkóska gengið. Þar var ein afar vingjarnleg vinkona sem sá hvað ég var grunsamlega þreytt og týnd svo hún bauðst til þess að fylgja mér að kaupa sim kort og argentínska pesóa á niðursettu verði. Áður en ég hafði farið frá Íslandi hafði ég heyrt af þessu gjaldeyrisbraski svo ég hafði tekið út slatta af dollurum með, eða þrjú hundruð þúsund í íslenskum krónum. Og þegar þarna er komið við sögu var ég á milli gististaða svo ég gekk um borgina með þrjú hundruð þúsund isk í buddu inni á mér (ég var reyndar líka með tölvu og myndavél og aleiguna á bakinu því ég var að fara á annan gististað). Það hljómar eins og ég geri mér ekki grein fyrir því hve algengt það er að vera rænd í stórborg. Samt bjó ég í tvö ár í einni hættulegustu stórborg í heimi. Ekkert gerðist samt. Don’t worry.

Ekkert klink, bara sturlað mikið af seðlum.


Semí löglegar peningabúðir

Verðbólgan er vissulega ofsaleg á Íslandi en í Argentínu er hún í kringum 50 prósent. Gengi argentínska pesósins við aðra gjaldmiðla breytist frá degi til dags og eftirspurn eftir erlendum gjaldmiðli í Argentínu er því í gríðarlegum vexti (kannski álíka miklum vexti og egóið á karlmanni sem er nýbúinn að fá hrós fyrir að vaska upp). Opinbera gengið er meira en tvöfalt hærra en óopinbera gengið sem myndast á svokölluðum „bláum markaði“ sem hægt er að skipta á í litlum semí löglegum peningabúðum downtown. Með öðrum orðum gat ég fyrir þremur dögum skipt dollaranum fyrir 130 pesóa í bankanum (opinbera) en 285 pesóa í einhverri svona semí löglegri peningabúð (ópinbera) downtown. Ég fór auðvitað í það semí löglega og keypti fullt af peningum (en samt ekki of mikið því ég gæti fengið meira fyrir dollarann á morgun eða hinn).

Allt í einu lækkuðu öll verð, allt í einu var ekki helmingi ódýrara að búa í Buenos Aires heldur margfalt ódýrara. Verðin á vörum breytast líka frá degi til dags, rauðvín í dag kostar ekki endilega það sama og rauðvín á morgun (þó svo að glasið sé alltaf stútfullt). Þetta er eitthvað sem heimamenn eru löngu búnir að venjast. Æ þetta verður kannski betra á morgun, segja þeir, eða verra. Þess vegna hafa ýmsir brugðið til sinna ráða. Í gær fór ég til dæmis í Vintage búð þar sem fötin voru ekki merkt með verði heldur fjölda af breytunni X. Þegar ég kom inn í búðina útskýrði afgreiðslukonan kerfið fyrir mér (reyndar gerði hún það þrisvar; í fyrsta skiptið var ég að stara á sólgleraugu í annað skiptið talaði hún of hratt og í þriðja skiptið skildi ég hana). Þennan dag, stóð hvert X fyrir 300 pesóa. Kápa sem merkt var með 20X kostaði því 20*300 = 6.000 pesóa, og sólgleraugu sem merkt voru 5X kostuðu því 5*300 = 1.500 pesóa. Ég keypti sólgleraugun, enda voru mín í týndu ferðatöskunni.
Sólgleraugun og Teatro Cólon (leikhúsið) 

Buenos Aires er best

En! Þetta kann að hljóma frumstætt og kannski sjái þið fyrir ykkur einhverja örbirgð. Það er hins vegar langt frá því sem ég sé, vissulega hefur verðbólgan hræðilegar afleiðingar fyrir heimamenn sem búa við efnahagslegt óvissu og margir mikið óöryggi. Buenos Aires er þó ein ríkasta borg sem ég hef komið til, menningarauðurinn er svo stórfenglegur. Hér eru leikhús út um allt og bókabúðir á þriðja hverju horni. Kaffið er svo ljúffengt að ég er byrjuð að titra af koffínneyslu og rauðvínið er ómótstæðilegt. Þegar sólin hitar stræti og torg (það er samt vetur) sest fólk niður á grasfleti og bekki, les bækur eða slakar á með vinum sínum og sýpur á Mate. Hér er algengt að eiga hunda, sem eru út um allt, vel upp aldir og bestir og sætastir. Borgin er svo vel hönnuð að umferðin virðist ganga vel þrátt fyrir ofgnótt af bílum, það er þægilegt að vera gangandi vegfarandi og almenningssamgöngur eru auðveldar í notkun. Ég get gengið um, morgna sem kvöld, áhyggjulaus og hamingjusöm.

Ég er flutt inn í tímabundið húsnæði í miðbænum í eldgamalli byggingu sem er 16 hæða há. Til þess að fara í lyftuna þarf að opna hlið handvirkt og það er dyravörður í anddyrinu. Ég elska Buenos Aires og ætla í leikhús í hverri viku. En svo þarf ég að læra, í þessari eða næstu viku (ekki alveg viss) fer skólinn á fullt. Þá verð ég duglegur námsmaður, eins og páfinn var þegar hann sótti skólann: Universidad del Salvador.

Ef þið viljið koma í heimsókn skal ég bjóða ykkur upp á fimm rauðvínsglös (fjöldinn gæti þó breyst frá degi til dags. Glösin gætu orðið fleiri, eða færri).

Xxx

Heiða


P.s.
taskan mín á víst að koma í dag.



Comments

  1. Ég er að meta þetta blogspot comeback! Svo gaman að lesa og Buenos Aires gæti ekki hljómað betur í mín eyru. Knús yfir hnöttinn og keep us posted <3

    ReplyDelete
  2. Hlakka til að heyra af fleiri ævintýrum þínum og dyravarðarins!!! ;P :D :***

    ReplyDelete

Post a Comment

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins