Seinustu sólargeislarnir

Ég sit úti á pinkulitlum svölum í risastórri borg, aftari stólfæturnir eru inni í svefnherberginu mínu en fremri fæturnir ná út á litla fermetrann minn sem liggur beint inn í borgarniðinn. Annar meðleigjanda minna finnst niðurinn yfirþyrmandi og er að leita sér að öðrum íverustað, ég vona að það sé ekki út af mér en ég held að það sé ekki hljóðbært milli herbergja. Blessunarlega er ég samt hætt að hrjóta eftir að hálskirtlarnir voru fjarlægðir úr mér fyrir rúmu ári og ég lærði að anda upp á nýtt. Háls-, nef- og eyrnalæknirinn sagði að kyrtlarnir mínir væru svo stórir að ég hefði andað vitlaust allt mitt líf. Þegar ég var lítil, kannski átta ára, skoðaði annar læknir stórvirkin og hrópaði upp yfir sig að kyrtlarnir væru eins og brjóstin á Pamelu Anderson. En sá læknir sagði að ég myndi vaxa upp í þá og mamma sagðist skyldi útskýra seinna fyrir mér hver Pamila væri. Mamma gaf mér aldrei rauðan sundbol eða svoleiðis en tuttugu árum síðar var það óþarfi þegar ég losaði mig pamelurnar úr kokinu í hinsta sinn og hjartað byrjaði loksins að fylgja réttum takti. En seinustu daga er ég búin að eiga agnarögn erfitt með að anda, ekkert alvarlega, en það eru miðannarpróf og svo hef ég þurft að sinna öðrum verkefnum líka. En ekki hafa áhyggjur, ég er búin að drita niður orðunum og er örugglega komin með píanóputta en allavega búin að skrifa ritgerð um argentínskar bókmenntir (á spænsku) og femínisma sunnan miðbaugs. Ég er alveg að klára og þá fer ég upp í rútu sem ferjar mig að fossunum sem birtast í upphafi Pixar myndarinnar Up.

Já, lífið er gott og stressið mjög takmarkað (þetta er samt örugglega svipuð orð og þeir sem eru á barmi burnouts nota, en ég langt frá því, ég lofa. Prometo!) Auk þess keypti ég mér fjólubláa jógadýnu í gær sem ég er búin að koma fyrir á gólfinu við svaladyrnar, kannski get ég reynt að byrja dagana á sólarhyllingu beint út í umferðarniðinn. En núna ætla ég allavega bara að sitja úti á agnarsmáu svölunum mínum og njóta þessa örfáu sólargeisla sem komast til mín, áður en þeir hverfa bak við háhýsin í kring.

 

xxx

Heidy

 

P.s.

Ég skil loksins þetta concept hans Andra Snæs í Sögunni af Bláa hnettinum. Hérna eru hásýsin í miðborginni svo há og mikil að sólin nær varla niður á neðstu hæðirnar – hvað þá götuna. Efnameira fólk býr svo auðvitað á efstu og sólríkustu hæðunum og þeir fátækustu neðst, með takmarkaðan aðgang að sjálfri sólinni.

Comments

Post a Comment

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins

Buenos Aires er best