Vinaveiðar, sundskýlumyndir og svo endurfæddist ég

Það er bæði ómótstæðilegt og krefjandi að eyða jafnmörgum stundum með sjálfri mér eins og ég hef gert fyrsta mánuðinn minn Buenos Aires. Eftir að ég fékk ögn leið, sendi ég hinum og þessum sem höfðu búið í Argentínu skilaboð um hvort þau gætu lánað mér vini. Þau ýmist seenuðu mig eða voru uppiskroppa með einstaklinga í höfuðborginni, allir nema Gunnlöð sem var tilbúin að lána mér fyrrverandi eiginmanninn sinn sem ég tók við með glöðu geði. Ég tók hann samt ekki sem eiginmann því það væri afar óviðeigandi og mjög ýkt. Skólinn hefur líka reynt að sjá um sína, er með alls kyns uppákomur fyrir skiptinema sem hafa verið duglegir að hópa sig saman og mynda platónsk (og líka annars konar) ástarsambönd. Í gegnum skólann hef ég kynnst yndislegum krökkum en til gamans má geta að ég er áratug eldri en allir og ef til vill aðeins sérkennilegri. 


Svona líður mér (þessi var tekin á Spáni, fannst hún bara viðeigandi).

Til í tuskið 

Að veiða vini á sem skemmstum tíma er dálítið eins og að finna sér félaga rétt fyrir lokun á skemmtistað. Meðal skiptinemasamfélags er það auðveldast, allir til í tuskið en óvíst hvort gæðin verði upp á marga fiska. Ég eignaðist til dæmis eina vinkonu sem talar hvorki spænsku né ensku en við getum hlegið saman og skipst á frösum eins og: O Rosalía eða Sííí Beyonce og svo setur hún kannski hendina upp við vangann þegar hún ætlar heim að leggja sig. Það er fínt, en kannski ekki eitthvað sem ég er tilbúin að endurtaka mjög oft. Þess vegna leitaði ég á ný mið og þar sem ég veit að áhugamál eru alltaf eitthvað sem sameinar spurði ég alla samnemendur mína í argentískum bókmenntum hvort þau vildu dansa. Ein skvís sagði já og sama kvöld fórum við saman á salsakvöld á barnum La Salsera. Við skemmtum okkur vel og ég eignaðist meira að segja eina argentíska insta vinkonu í viðbót.

En svo leið vikan, ég horfði á heila seríu og Desperate Housewives og fékk engin skilaboð, ekkert: Hæ, vá hvað var gaman, eða: Ættum við að endurtaka leikinn? Og þar sem vinaveiðar eru svolítið eins og að deita ákvað ég bara að gera það í staðinn.

Staða og status - eða sixpack?

Ég skrifaði á Tinderið mitt að ég væri að leita að einhverjum til að fara með mér í leikhús, sem er alveg satt en mig grunaði að með því móti gæti ég kannski kynnst einhverjum sem væri til í að aðstoða mig við að efla spænskukunnáttu mína ögn áður en hann sýndi mér sixpackið sitt. Það fyndna við að svæpa hér eru nefnilega sundskýlumyndirnar. Í Buenos Aires er enginn með lax eða í golfi og fáir í fínum útivistafötum á fjöllum. Hér eru heldur ekki svakalega útpældar hipsteramyndir sem sanna að viðkomandi sé sko ekki efnishyggjumaður. Ef keppnin á íslandi snýst um stöðu og status snýst keppnin hér um sixpack. 

Það var reyndar einn peyi á appinu með mynd af sér á fjöllum, hann heitir Eggert og var í sirka 11.579 km fjarlægð. Ég lækaði hann ekki því ég efaðist um að hann hefði greitt tinder sérstaklega til þess að finna mig. En ekki misskilja, mér líkar ekkert illa við Eggert, ég skildi hann raunar vel, mjög vel. Í Argentínu er almennur fegurðarstandard nefnilega hár. Fólkið hérna er mjög fallegt. Þess vegna getur verið flókið fyrir einstaklinga eins og mig og Eggert, sem erum smá bláeygð, að sigta út; erfitt að gera sér grein fyrir hverjir séu vel af guði gerðir og hverjir séu til dæmis myndarlegir morðingjar. 

Þess vegna hugsaði ég að það væri fínt að fara á tinderdate í leikhús (ath. ekki jafn formlegt og oftast á ísl) - drekka kannski glas af malbec saman og forvitnast um hvort viðkomandi væri til dæmis með tattúverað tár á gagnauganu.

Er dimmt? En kalt?
Er eldfjall? En dreki?

En. Ókei. Sko. Samtölin fóru í aðeins aðra átt en ég hafði vonað. Allt í einu var ég orðin eins og kynningarstjóri Íslandsstofu sem útskýrði trekk í trekk að Já, það væri kalt og dimmt á Íslandi og að Já, Ísland væri langt í burtu og að Einmitt, ég tryði því alveg að ég væri fyrsti Íslendingurinn sem viðkomandi talaði við og líka að NEI, íslenska ríkið væri ekki að greiða erlendum mönnum fyrir að giftast íslenskum konum (ég útskýrði reyndar ekki að ég gæti hvort sem er ekki gifst viðkomandi því tæknilega séð væri ég enn ekki skilin. Ég útskýrði það reyndar á einu deiti og beit mig svo í tunguna eins og húsálfurinn Dobbí hefði gert). Það er nefnilega mýta sem gengur um í hinum spænskumælandi heimi að íslensk stjórnvöld greiði erlendum kk fyrir að giftast ísl. kvk. Sú mýta er mjög fyndin, því hugmyndin um að íslensk stjórnvöld taki vel á móti innflytjendum frá löndum utan Evrópu er í sjálfu sér mjög fjarstæðukennd. 

Lausnin var einföld; ég, Heiða Vigdís, endurfæddist sem Heidy frá Buenos Aires sem lærir letras við Universidad del Salvador. Hún hefur áhuga á leikhúsi, dýrum, dansi, bókum, skrifum, rauðvíni, gríni og glensi (eiginlega eins og Heiða). Ég tók málin í mínar hendur. Vakti dag og nótt til þess að glósa mállýsku borgarinnar; slangurmálið Lunfardo. Svo spjallaði ég bara eins og ég væri rótgrónasta skutlan úr ræsum Buenos Aires (þarf kannski að æfa hreiminn betur). Svo skrifaði ég bara Brb þarf að fara að drekka mate og fá mér media luna (argentísk útgáfa af crossanti).

En ók, það kann að þykja sérkennilegt og óviðeigandi að ljúga svona. Ég nennti bara ekki aftur á deit með manni sem hafði meiri áhuga á íslensku veðurfari en mér. Og satt best að segja bar leikurinn árangur, þrátt fyrir skínandi hár, skandinavísk augu og húð í stíl hef ég nokkrum sinnum verið spurð til vegar og bara einu sinni viðurkennt raunverulegan uppruna minn: Ásvallagata 79, 101 Reykjavík, Iceland/Islandia.

Guð blessi mig (takk fyrir minturnar Helga)

Heidy la Porteña

Mánuður er liðinn frá því að ég missti af flugi, glataði ferðatöskunni minni og fékk kóvid í kaupbæti. En fall er fararheill og allt það og ég finn að hægt og rólega er ég að ná æðislegum ballans í Buenos Aires. Þótt það kunni að hljóma eins og ég sé í afar desperate leit að félagsskap er sannleikurinn sá að mér er eiginlega farið að finnst ómótstæðilegt að verja svona miklum tíma með sjálfri mér – eða með Heidy la Porteña (viðurnefnið á við um einstakling frá Buenos Aires en þýðir í rauninni „frá hafnarborg“. Þar sem Reykjavík er hafnarborg er ég kannski ekki að ljúga mjög mikið).  

xxx

Heidy

P.S.

Tinderið mitt er búið að krassa tvisvar sinnum eftir að ég flutti út. Það er ekki næs svo ég er komin með OkCupid, hefur einhver heyrt um það?


Comments

  1. Hola Heidy ! Hef klárlega prófað OK cupid 🤩 það er metnaður að vera þar inni 🥸 gaman að lesa af ævintýrum þínum

    ReplyDelete

Post a Comment

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins

Buenos Aires er best