Áttavillt en ekki dauðvona

Ég man aldrei hvar ég á heima. Þess vegna hef ég verið að ganga fram og til baka um miðborg Buenos Aires, stundum í hringi, í tilraun til þess að koma auga eitthvað kunnuglegt, eins og til dæmis hurðina á heimilinu mínu. Mér hefur nefnilega verið verið ráðlagt gegn því að ganga með símann á lofti (með maps opið) því hér eru nokkrir alræmdir sjomlar sem kippa símum úr höndunum á gangandi vegfarendum, sérstaklega ef vegfarendurnir virðast utan við sig öllum stundum. Ég hef þurft að reyna að rata sjálf, án þess að nota símann. Ég þekki nafnið á götunni minni, húsnúmerið, veit að gatan er á horninu á breiðustu breiðgötu í heimi og man að rétt handan við hornið er fallegasta og elsta leikhús borgarinnar. Svo ég stefni yfirleitt þangað, en svo sé ég kannski ofboðslega krúttlegt kaffihús, ofurlitla búð eða sætan strák og þá tek ég eftir því að háhýsin í kring ná alla leið upp til himna og sé agnarsmáu svalirnar sem sleikja skýin. Þá man ég kannski hvað það er æðislegt að vera ein í stórborg þar sem enginn þekkir mig og enginn er að pæla í því hvar ég sé í lífinu né þessu skammarlega sem ég gerði kannski seinasta fimmtudagskvöld á Röntgen. Ég man að hér er ég bara engin eða hver sem er og svo er ég búin að ganga í sjö hringi í kringum hverfið mitt, eða var þetta hverfið mitt? Og var ég á leiðinni heim? Eða ætlaði ég kannski á kaffihús eða var ég orðin svöng?

Bless, bless

Til að byrja með var ég aldrei svöng í Buenos Aires. Ég átti enn erfiðara með að þekkja muninn á hægri og vinstri en vanalega og þegar ég fór fyrst að djamma gat ég aðeins torgað tveim drykkjum, var farin að finna fyrir hverju einasta beini í líkamanum og fór meira að segja að hafa smávægilegar áhyggjur af eigin dauðdaga. Þegar ég kláraði seinni margarítuna kvaddi ég því hina skiptinemana og útskýrði að ég væri svo ofboðslega gömul að ég djammaði nú ekkert mikið lengur (sem er haugalygi en kannski hélt ég að ég væri að þroskast). Næstu daga hættu beinin ekki að minna mig á tilvist sína, og eftir að ég fór í 15 kílómetra göngutúr með fyrrverandi eiginmanni vinkonu minnar (Gunnlaðar) hélt ég í alvörunni að ég væri við það að draga minn hinsta andardrátt. Ég kvaddi hann og sagði Bless. Ég var samt ekki bara að segja Bless við hann heldur ykkur öll og vonaði að hann myndi kannski skila kveðjunni til Gunnlaðar sem myndi svo koma henni áfram til ykkar allra. Að endingu þakkaði ég páfanum í Róm fyrir að ég hefði tryggt mig fyrir eigin dauðdaga opnaði Google maps í símanum og komst blessunarlega upp í rúmið mitt áður en nóttin skall á (símanum var ekki stolið).

Þar lá ég tímunum saman, alveg þar til góður maður frá flugvellinum kom með ferðatöskuna mína beint upp að dyrum klukkan 15 daginn eftir. Þá hafði ég verið fimm daga án farangursins míns og næstum því gleymt hverju ég hefði pakkaði. Þegar ég opnaði ferðatöskuna small allt saman í höfðinu. Ég hafði auðvitað manifestað þessu, eins og öllu öðru, rétt áður en ég hafði lagt af stað frá Íslandi var eins og ég hefði ákveðið að smitast á leiðinni með því að skella einu heimaprófi með til „vonar og vara“. Prófið var auðvitað jákvætt en ég var svo glöð yfir því að vera ekki að deyja því ég vissi að ég myndi ekki deyja því þetta var í þriðja skipti sem ég smitaðist af þessari motherfuckings ógeðslegu ömurlegu skíta veiru sem ég neita að nefna á nafn.

Svalirnar sem sleikja skýin

Næstu daga var ég rúmliggjandi. Ég notaði tímann í að ímynda mér hvernig væri að vera ein að eilífu og reyndi ég að sannfæra sjálfa mig um að ég myndi aldrei aftur eiga vini, fjölskyldu, gæludýr né einnar nætur gaman. En svo þegar ég var búin að taka sirka spjald af parkodín, troða heilli rúllu af klósettpappír upp í nefið á mér og hósta úr mér sálina, hætti horið loksins að leka. Þá reis ég upp. Eins og fokkins fönix úr öskunni klæddi ég mig í fabilous fötin sem flugfélagið hafði gefið mér í sárabætur fyrir að hafa geymt töskuna mína í fimm daga og svo spásseraði ég um götur Buenos Aires. Ég gekk fram og til baka, held ég, og í hringi, alveg þanga til ég var búin að gleyma hvar ég ætti heima og var farin að skoða litlu sætu svalirnar sem sleikja skýin.


Comments

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins

Buenos Aires er best