Eurohippar eru óþolandi

Undanfarið hef ég verið í bréfaskriftum við argentínska embættismenn, fundað við þá í gegnum fjarskiptabúnað, sent þeim vegabréfið mitt í umslagi og sannfært þá um að líkamsleifar mínar verði tryggt far aftur heim (ef allt fer á vesta veg). 

Í fámennu landi eins og á Íslandi er kannski erfitt að skilja nauðsyn þessa trygginga. En einu sinni bjó ég í stórborg (svona megaborg með yfir 20 milljónum) og þess vegna skil ég áhyggjurnar. Þegar ég bjó þar fór vinkona mín nefnilega á deit með læknanema sem tók hana í kynnisferð um háskólasvæðið. Neminn sagði henni að loka augunum, leiddi hana um mannlausa læknabygginguna þangað til þær komu inn í svalt herbergi. Þá setti læknaneminn hendi vinkonu minnar á eitthvað ískalt og strekkt. Hún hrökk við og hrópaði. Þegar hún opnaði augun hafði hendinni verið komið fyrir á líki. Og inni í svala rýminu voru fleiri lík, lík sem áttu hvorki nöfn né samastað svo borgaryfirvöld höfðu gefið læknanemum þau. Gjöf í þágu vísindanna. Deitin urðu ekki fleiri en borgaryfirvöld þar í landi eru víst enn að kljást við þetta vandamál; líkamsleifar sem hvergi eiga grafreit.

Já, ef ég væri Argentína myndi ég passa vel upp á þetta. Sérstaklega myndi ég krefjast þess að ungir Evrópubúar tryggðu sig. Þeir hugsa yfirleitt ekki út fyrir augnablikið, allavega ekki eurohippar, þið vitið, svona fáklæddir forréttindahippar með flækjur í hárinu og yfirvegað yfirbragð. Þetta er algeng tengund í heitari löndum og raunar á hostelum út um allan heim. Ég var til dæmis á festivali á Spáni um daginn þar sem allt var morandi í tegundinni, þeir vögguðu hausunum fram og til baka í takt við einhverja tónlist eins og þeir tækju ekki eftir skaðlegustu hitabylgju í nútímasögu Evrópu! Stemningin var þess háttar að heilastarfsemi fæstra virkaði vel og flestir virtust við það að bráðna saman við gangstéttina. Þá fór ég að velta þessu fyrir mér, sjá fyrir mér kirkjugarðana á Spáni yfirfulla af ótryggðum líkamsleifum, satt best að segja varð ég ögn áhyggjufull. Þess vegna reyndi ég að aðstoða þrjá eða fjóra síðhærða menn sem brostu til mín með því að benda þeim á tryggingamöguleika en þeir svöruðu mér bara: Lifðu í mómentinu eða Engar áhyggjur beibí. 

Ekki gott. Eurohippar eru óþolandi. Og núna er ég að verða þannig. Forréttindalistnemi með ljósa lokka og flugmiða aðra leið til Suður-Ameríku. Plön um að lifa bara í mómentinu (beibí). Þess vegna sagði ég auðvitað Ekkert mál í hverju einasta bréfi til argentínsku embættismannana, tryggði líkamsleifarnar mínar og gerði allt sem þeir sögð mér að gera. 

En jæja nú er komið að þessu. Ég er búin að bóka gistingu fyrstu dagana (bæði í Montreal og Buenos Aires) og svo ætla ég í skóla. Já, ég er nefnilega á leiðinni í skipitnám í bókmenntum eða ritlist (ekki viss) til Universidad de Salvador í Buenos Aires.

Spennó.

xxx

Heiða

P.s.
Ég vona auðvitað að allt fari á besta veg, að líkaminn minn verði ekki að leifum og að hárið mitt endi ekki flækt saman í þykka óleysanlega lokka (en aldrei að vita).


Comments

Popular posts from this blog

Ísköld dúnsæng og Buenos Aires er fölnað í fortíðina

Töfrar lífsins

Buenos Aires er best